Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 72/2012.

 

 

Miðvikudaginn 19. júní 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 72/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 20. júlí 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 26. júní 2012, á beiðni hans um fjárhagsaðstoð vegna sérstakra erfiðleika.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð vegna sérstakra aðstæðna fyrir tímabilið 1. janúar 2012 til 1. júní 2012 að fjárhæð 130.000 kr. hjá Reykjavíkurborg með ódagsettri umsókn. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 23. apríl 2012, með þeim rökum að umsóknin samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Námsaðstoð nái einungis til náms sem leiði til lánshæfs náms hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, sbr. nám til stúdentsprófs. Ekki sé heimilt samkvæmt reglum að samþykkja innritunarkostnað vegna Háskólanáms. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 26. júní 2012 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

„Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um styrk að upphæð kr. 130.000.- þar sem eigi verður talið að aðstæður umsækjanda falli að skilyrðum þeim sem sett eru í 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi aðstoð vegna sérstakra erfiðleika.“

 

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 26. júní 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 20. júlí 2012. Með bréfi, dags. 25. júlí 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um sérstakar húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 29. ágúst 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 30. ágúst 2012, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 5. desember 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi kveðst vera í fjarnámi í byggingariðnfræði við Háskólann í Reykjavík og önnin kosti 130.000 kr. Hann sé tekjulaus þar sem hann sé í afplánun á B. Tryggingastofnun hafi ekki greitt bætur vegna örorku síðan árið 2011 og hann fái ekki dagpeninga vegna dvalar á stofnun. Í B fái hann greiddar 78.000 kr. á mánuði og 10% af því fari í kirkjustarf. Á mánuði greiði hann 16.000 kr. í símkort og það sem eftir sé fari í mat. Kærandi sjái ekki möguleika á því að halda náminu áfram nema fá aðstoð til þess. 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

 

Í athugasemdum sveitarfélagsins eru ákvæði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg rakin. Þá segir að kæranda hafi verið synjað um styrk vegna sérstakra erfiðleika þar sem ekki séu uppfyllt öll skilyrði 24. gr. reglnanna. Kærandi hafi ekki verið með fjárhagsaðstoð sér til framfærslu undanfarna sex mánuði eða lengur, sbr. a-lið 24. gr. reglnanna. Ekki liggi fyrir yfirlit starfsmanns þjónustumiðstöðvar eða umboðsmanns skuldara um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum eins og kveðið sé á um í c-lið 24. gr. Þá liggi ekki fyrir á hvern hátt styrkurinn muni breyta skuldastöðu umsækjanda til hins betra þegar til lengri tíma sé liti, sbr. d-lið 24. gr. Þá liggi ekki fyrir samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf, sbr. e-lið 24. gr.

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð.

 

Við meðferð máls þessa hefur fram komið að kærandi í málinu er látinn. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki lengur til staðar. Af þeim sökum verður kærunni vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

A, á ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 26. júní 2012, um synjun á beiðni um fjárhagsaðstoð er vísað frá.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                Gunnar Eydal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum